Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Hégóminn

Dáðst að sjálfri sér...

Emma Lilja hefur gaman af því að horfa á sig í spegli.  Ég er ekki viss um að það stafi af því að hún sé að dást að sjálfri sér eða hreinlega finnist bara svona gaman að sjá fleiri börn í kringum sig, sérstaklega eitt svona svipað henni.  Við foreldrarnir skiljum allavega ekkert hvaðan hún hefur þetta, enda einstaklega lítið hégómagjörn sjálf   (hmmm já eða þannig). 

Nýorðin sjö mánaða og mamman farin að fá aðeins í magann yfir endalokum fæðingarorlofs sem nálgast óðum.  Reyndar er alveg tilhlökkun tengd því að fara að vinna aftur í janúar en já, þetta verður pínu skrýtið.  Pabbinn verður heima í janúar og febrúar og til að stytta þeim feðginum stundir, þá verður keyptur fótbolti í sjónvarpið.  Veit ekki hvort Emma Lilja fái einhverja athygli frá pabbanum....  Svo er bara að vona að góð dagmóðir taki barnið í sínar hendur í mars, það er enn ófrágengið en nöfn okkar mæðgna prýða nokkra biðlista dagmæðra.  Maður fer bara að rækta magasár þegar maður fer að hugsa um þetta allt saman...   En einhvernvegin tekst þetta nú allt saman hjá fólki, og okkur líka.


Nýr frændi

5 dögum fyrir fæðingu

Á laugardaginn eignaðist Emma Lilja lítinn, ofurfullkomin, dúllulegan frænda með mikið dökkt hár.  Anna Lilja systir Dóra og Elli kærastinn hennar áttu eilítið erfiðan dag en á endanum gekk þetta og þvert á væntingar flestra um stúlkubarn kom stór strákur í heiminn.  Ég sé það alveg að eftir að maður sjálfur eignast barn þá upplifir maður sína eigin fæðingu í hvert sinn sem fólk í kringum mann gengur í gegnum það sama.  Spenningurinn og allt það er miklu meiri og maður vill heyra öll smáatriði.  Breyttir tímar Glottandi

Emma á enn eftir að hitta frændann, maður gefur honum aðeins tíma til að átta sig á heiminum en þau eiga örugglega eftir að vera bestu vinir, enda gott að eiga frænda á sama ári til að leika við í fjölskylduboðum og jú hvenær sem er.  

Innilega til hamingju Anna Lilja og Elli og velkominn í heiminn, litli kútur.... 


Sölumannafóbía

Ég verð alveg fyrst til að viðurkenna að ég hef mikla fóbíu fyrir símasölumönnum (eins og kannski fleiri) en þegar hringt er í mann að kvöldi, við matseld, bleyjuskiptingar eða slíkt þá finn ég alveg hvernig hjartað í mér sem allajafna er dúnmjúkt breytist í stein og ég verð jafnvel dónaleg við saklaust fólk sem reynir að vinna fyrir sér og er jafnvel að selja geisladisk með aldagömlum lögum til styrktar sjúkum sniglum í síberíu.  Já nei takk, ég reyni af fremsta megni að vera kurteis en næ að enda símtalið á innan við tíu sekúndum.  

En nú er maður orðin foreldri og þá hafa símasölumenn fundið veika blettinn á manni.  Um daginn hringdi kona frá ónefndu félagi og óskaði mér innilega til hamingju með barnið  (hvernig veit fólk þetta?) og með því að spyrja mig aðeins út í foreldrahlutverkið var hún alveg orðin besta vinkona mín.  Þegar söluræðan byrjaði, fór samt hjartað mitt að svona byrja að harðna en þegar hún lýsti fyrir mér að hún væri nú búin að leggja á sig mikið erfiði til að ná saman einstökum barnabókmenntaperlum sem höfðu verið uppseldar og ófáanlegar, byrjaði ég aðeins að gefa mig.  Hún var svo rausnarleg að bjóða mér 50% afslátt af heildarverði pakkans (50% discount, only for you my friend, kannast einhver við þetta?) og ég sá mig í anda fletta í gegnum barnaheimsatlasinn með Emmu eftir nokkur ár, þá hreinlega var ég farin að fá tár í augun og grátbað hana nánast um að selja mér pakkann, bara plís, líf Emmu yrði ekki samt án hans.  Jamm og svo voru svona líka frábær greiðslukjör, hægt að dreifa hægri vinstri vaxtalaust og jamm...  

Nú bíð ég bara eftir sendingu og verð kannski að vera aðeins sneggri næst að skella á.... 


Kallinn þrítugur

Hjálpað frænku að drekka
Jæja, þá er "betri" helmingurinn kominn á fertugsaldurinn eins og við
hin (eða sum okkar).  Hann tók sér frí í vinnunni í dag í tilefni
dagsins og nú er bara verið að undirbúa pínu teiti fyrir þá nánustu í
kvöld.  Emma Lilja er að sjálfsögðu himinlifandi yfir áfanga
föðurins og er eitthvað búin að gefa vísbendingar um að hún hafi gjöf í
pokahorninu.  Svei mér þá ef kallinn er ekki bara að bera aldurinn
ágætlega, alltaf sami sjarmurinn.  Hann vill þakka góðri kærustu
þennan áfanga, hann hefði aldrei meikað tvítugsaldurinn án hennar, hehe.

Torticollis

Lasinn stúlka

Eins og kannski hefur komið fram hér áður þá er ég ekkert sérstaklega næm þegar kemur að veikindum fólks.  Eitt af því sem ég hef átt bágt með að læra er þetta að setja hendi á enni barns og geta þá sagt til um hitastig.  Um daginn hélt ég að ég væri búin að ná tökum á þessu þegar Emma Lilja var brennheit á hausnum en þegar ég setti hendi við, þá sko þóttist ég finna að undir þessu öllu væri engin alvöru hiti, þ.e. að hún væri við hestaheilsu.  Við nánari skoðun var stúlkan með rúman 40 stiga hita og ljóst að ég þarf að æfa mig svolítið betur í þessari hitamælingaíþrótt.  Eftir að hafa talað við tvo lækna á tveimur dögum var orðið ljóst að Emma Lilja stríddi við vírus sem ekkert er við að gera en bíða eftir að hverfi en einnig tjáði okkur einn barnalæknir að hún væri með Torticollis.  

Þetta hljómar verr en það er, það sem þetta þýðir er að hún er með smá leiðindi í einum vöðvanum í hálsinum þannig að hún hallar höfðinu alltaf undir flatt, þ.e. vöðvinn er of stuttur.  Og hvað þarf að gera? Jú hún þarf að fara í sjúkraþjálfun, litla stúlkan, svo hún muni ekki þjást af vöðvabólgu síðar á ævinni.  Af öllum "sjúkdómum" sem stúlkan mín hefði getað fengið, þá skal ég sko alveg sættast við saklaust Torticollis.... 


Fleiri myndir

Hálft ár

Oftast finnst manni hálft ár ekki langur tími. Þetta er kannski tími til að ná að borga upp eitt samviskubit á raðgreiðslum, geymslan sem átti að taka í gegn í janúar er enn í rúst hálfu ári síðar, hár síkkar eilítið, uppáhaldslagið í útvarpinu er orðið pirrandi, aukakílóin hrynja á mann úr öllum áttum og maður er alltaf jafnungur.  

Nema þegar frumburðurinn er orðinn hálfs árs, þá er hálft ár alveg gígantískur tími en samt svo snöggur að líða.  Þetta hálfa ár búið að vera ótrúlegt, að sjá litlu rækjuna verða að persónu með eigin karaktereinkenni og svona líka skemmtileg og gleðigjafi fyrir foreldrana. 

  • Sex mánaða krílið getur borðað nánast allt (og finnst það ýkt gaman),
  • getur velt sér í allar áttir
  • getur skriðið svolítið á parkettinu, aðallega afturábak
  • á sín uppáhaldsleikföng (Binna býfluga og Siggi Skjaldbaka)
  • drekkur enn mömmumjólk í miklu magni, helst oft á næturnar líka, ekki til mikilla vinsælda
  • hjalar með tilþrifum, tekur Tarsanöskrin helst strax í býtið og finnst það svaka stuð
  • skellir upp úr og hlær þegar sagt er Búh! oft í röð
  •  á eina uppkomna tönnslu í neðri góm og önnur á uppleið við hliðina
  • finnst voða gaman að sitja og standa en getur ekki alveg sjálf ennþá
  • getur dundað sér endalaust í leikteppinu sínu með dótið sitt
  • er voða góð og þæg og yndisleg
Já þetta er baaaara gaman...  

Hár

Smjörgreiðslan fræga

Hár getur verið ótrúlega fyndið fyrirbæri.  Emma fór í fyrstu klippinguna í vikunni.  Það var snillingsstofa sem kallast Stubbalubbar og gerir þetta að skemmtilegri reynslu fyrir börnin (nei ég er ekki á prósentum, ætti samt að fá svoleiðis...).  Hún fékk viðurkenningu með áföstum hárlokk fyrir og ekki leiðinlegt að eiga slíkt í minningarsarpinum fyrir lilluna.  Nurlarinn móðir hennar ætlaði varla að tíma að greiða offjár fyrir að klippa þessar litlu lufsur og leitaði dyrum og dyngjum að einhverjum ættingjum sem gætu tekið að sér verkið fyrir knús en það bar engan árangur.  Loks gafst ég upp og þar sem maður fær 50% afslátt af fyrstu klippingu á fyrrnefndri stofu þá skellti ég mér þangað. Ég fylgdist bara vel með og hver veit nema ég prófi mig við þessa iðju þegar þess verður næst þörf!   Áður en lokkarnir fögru fengu að fjúka varð ég að taka nokkrar myndir af hárprúðri stúlku.  

Meðfylgjandi eru einnig myndir af föður stúlkunnar lokkaljúfu sem var heldur betur lokkaljúfur sjálfur.  Hann tók málið í sínar hendur og krúnurakaði sig sjálfur með þeim árangri sem sjá má á myndunum.  Fyrrnefndri móður finnst hann bara meiri sjarmur svona.... 


Fleiri myndir

Flugan

Bara verð að sýna leggina...

Dúlluleg helgi að baki.  Ég og Emma Lilja fórum í heimsókn á Skagann þar sem við gistum hjá Erlu systir sem er sjúklingur þessa dagana að jafna sig eftir aðgerð.  Emma Lilja var í skýjunum með athyglina frá frænkum sínum Sunnu og Ástrósu og hafði gaman af því að fá að kíkja með í klukkuklúbb að fá að slúðra aðeins og kjamsa á kræsingum. Við heimkomuna á laugardag hittum við fyrir krúnurakaðan föður stúlkunnar. (hann reytti hár sitt í söknuði)  Eftir að fá augnablik til að venjast honum, finnst okkur Emmu Lilju hann bara sætur svona.

Í dag sunnudag tókum við fjölskyldan svo rúnt á Selfoss og svo í heimsókn í bústað á Þingvöllum.  Þvílík paradís sem það er og mikil forréttindi fyrir fólk sem hefur aðgang að því svæði.  Við fengum að smakka aðeins á afurðum eftir berjamó og tókum göngutúr um svæðið.  Svo er ég svo heillandi persóna að ein ágeng þingvallafluga reyndi að komast sem næst mér og það með því að dýfa sér inn í eyrað á mér.  Skrýtin tilfinning að finna iðandi hreyfingar á þessu svæði, held að hún hafi ætlað að tékka á heilanum sem snöggvast.    Það var brugðið á ýmis ráð til að ná óboðna gestinum út en tilvonandi tengdamóður minni tókst loks að bjarga geðheilsu minni með hárspennu.  Úff þarf að þurrka þetta úr minninu sem fyrst.  En eins og fórnfús móðir myndi segja: Betra ég en Emma Lilja...


Móðursýkin

kvefstúlkan í nýja matarstólnum

Ég á við vandamál að stríða sem móðir.  Það liggur í því að ég er svo dæmalaust lengi að taka á hlutum.  Ég hef alltaf hallast að hinu virta og aldagamla íslenska spakmæli: " Þetta reddast".  Þetta er svosem ágætis mottó varðandi margt en þegar kemur að heilsu manns þá er spurning um að taka þessu ekki alveg eins hátíðlega.  Ef ég fæ tannpínu þá bíð ég bara nokkra daga og yfirleitt hverfur verkurinn.  Ef ég fæ útbrot þá bíð ég bara nokkrar vikur og yfirleitt hverfur kláðinn og ummmerkin.  Hins vegar eru jú verkir stundum bara merki um eitthvað meira undirliggjandi og oft er nú gott að láta prófessjónal fólk kíkja á málið. 

Sem móðir hættir mér til að beita sömu rökum en það er nú ekki alltaf sniðugt þegar um er að ræða fimm mánaða fallega stúlku sem getur ekki alveg tjáð sig um sína vanlíðan.   Um daginn fékk hún kvef með hósta og hori og af gömlum vana set ég mig í stellingar til að svona þrauka þetta, þetta er nú bara kvef!  Á endanum, eftir að hitinn blossaði upp lét ég tilleiðast og hringdi í læknavakt og fékk ráð hjá hjúkrunarkonu.  Hún vildi meina að þegar börnin væru svona ung væri alltaf betra að hlusta þau til að sjá hvort væri eitthvað "oní þeim".

Við rukum á vaktina með stúlkuna í náttfötunum og sem betur fer var þetta ekkert verra en bara hor í nös og kvef almennt.   Í  þetta sinn.

En maður veit víst aldrei og ég ætla að fara að bæta við lífsmottóið mitt þannig að það hljómi í endurbættri mynd:  Þetta reddast jú allt, en allur er varinn góður.... 


Hvunndagsorlofið byrjar á ný eftir sumarfrí

Gaman í litla fangaklefanum

Jæja, þá er yndisleg sumarbústaðavika í Húsafelli að baki með yndislegu veðri, tilheyrandi ofeldi (já nei, ekki ofbeldi!) og miklu magni af grænu hori frá ungabarninu.  Við tókum þá vel ígrunduðu ákvörðun að skella einkabarninu með okkur í ljúfan heitan pott í einmuna veðurblíðu föstudagsins (þ.e. komudagsins) en einhvernveginn tókst henni að krækja sér í kvef út frá þeirri reynslu og var spúandi vessum það sem eftir var vikunnar.  En það kom ekki í veg fyrir að dúllan skemmti sér hið besta í barnarúminu/leikgrindinni/geymsluhólfinu með dótinu sínu og bara almennt.  Foreldrar og systur Dóra kíktu í heimsókn á sunnudeginum og var þá tekið til við gönguferðir, trampólinhopp og að sjálfsögðu almennt át.  Sjá meðfylgjandi myndir....

Nú verð ég víst að taka mig til við að fara að gera allt sem ég hef frestað fram "þar til eftir sumarbústaðinn".  Það sem ber hæst á þeim frestunarlista er t.d. að fara að finna dagmömmu fyrir Emmu Lilju (óó vil helst ekki til þess hugsa...), fara í megrun  (einhverntímann verður sælgætisátinu að linna, er það ekki?), endurraða í geymslunni og fataskápunum (hmmm þetta er stærsta verkefni fæðingarorlofsins, verður líklega frestað aftur og aftur þar til viku áður en ég fer að vinna  en tekur svo örugglega bara 2-3 klst).

En það er nú sunnudagur ennþá og allar þessar framkvæmdir geta svo sannarlega beðið allavega fram til morgundagsins.... 

p.s. Sá einhver ofboðslega skrýtin brúðuþátt (Búbbarnir- halló hvar var þetta ónefni fundið?) á stöð 2 í gær sem mig grunar að hafi átt að vera fyndinn en minnti frekar á stórslys sem maður horfir á í von um að sjá eitthvað djúsí en skammast sín samt fyrir að vera að horfa?? 


Fleiri myndir

« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggari

Rósarimafjölskyldan...
Rósarimafjölskyldan...
Hvað er í gangi í Rósarimanum?

Færsluflokkar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband