Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Brúðkaup

Brúðhjónin Siggi og Súsí

Hvað er skemmtilegra til að fagna góðu sumri en að fara í brúðkaup? 

Súsí systir reið á vaðið með að gifta sig af okkur systrum enda elst og því skylda hennar.  Siggi Villi eiginmaður hennar (hmm ennþá pínuskrýtið að segja það) hefur líka verið afar rómantískur í tilburðum sínum við að biðja hennar og við að biðja foreldra okkar um hönd hennar.  Spurning með að hann haldi námskeið fyrir mága sína?

Þau ákváðu að hafa sem minnst tilstand, giftu sig hjá sýslumanni og ætluðu bara að hafa lítið kaffisamsæti heima hjá sér og stinga svo af.  Þetta óx þó aðeins í sniðum og endaði í fínum sal en var samt lítið, þægilegt, óformlegt og bara gaman.  Siggi fór hamförum í bakstri (hmm spurning með annað námskeið í þeim efnum fyrir minn mann?) og svo lagði Jói Fel hinn snjalli bakari til hluta af kræsingunum.  Á endanum varð þetta hin skemmtilegasta stund við að hitta ættingja og sitja á spjalli og við að reyna að fá Emmu Lilju til að sýna smá hressileika frá syfjunni.  Hún ætlar víst seint að fá nægan svefn! 

Innilegar hamingjuóskir til brúðhjónanna.....   


Margt er líkt með skyldum

Sofandi feðgin

Ungabarnið sykursæta verður æ líkari föður sínum og þá aðallega þegar kemur að svefnvenjum.  Hún sefur voðavel og mikið á næturnar, fram eftir degi og svo á daginn en er svo sprellifjörug og í stuði á kvöldin.  Skil ekkert í því að Dóri sé ekki löngu orðin næturvörður einhversstaðar, það myndi henta honum vel að geta vakað alla nóttina og sofið á daginn...

bæðevei þá er ég afmælisbarn í dag, 32 ára og er aðallega ánægð með að vera komin í móðurhlutverkið fyrir þennan áfanga.  En það væri svo sem alveg eins gaman þó ég væri 42 ára, held ég.  Ekki eins og maður þurfi að þola einhverjar andvökunætur...  Maður er bara á röltinu í góða veðrinu að njóta lífsins, gjörsamlega yndislegt líf.  

 


Líkamsæfingar

Haldið höfði
Já, maður þarf víst að gera líkamsæfingar alla ævi og maður byrjar
snemma.  Fyrstu æfingarnar snúast aðallega um að reyna að halda
uppi þessu ferlíki sem hvílir á öxlunum á manni.  Þetta gengur nú
upp og niður hjá Emmu Lilju og gerir hana alveg örþreytta svo hún þarf
að leggja sig aðeins meira.  Líklega fara nú æfingarnar samt að
bera árangur hvað úr hverju og hún hættir að missa stjórn á höfðinu í
allar áttir.  

Dúkkuleikur

Græni litli kjóllinn

Ég býst við að ég hafi alveg haft gaman af dúkkuleik þegar ég var lítil stúlka. Það sem ég var hins vegar ekki með á hreinu er sú staðreynd að ég hef enn gaman af dúkkuleik.  Ég fékk nokkra afskaplega fallega kjóla frá Erlu systur um daginn. Þetta eru kjólar sem voru notaðir af dætrum hennar Sunnur og Ástrósu og eru sumir þeirra þó nánast ónotaðir.

Þvílíkan krútthroll sem maður fær af svona kjólum.. og ég náttúrulega varð að fara í dúkkuleik með dótturina og taka myndir af árangrinum.  Meðfylgjandi myndir eru afraksturinn. Ég viðurkenni hinsvegar fúslega að ljósmyndun er ekki mín sterkasta hlið og má ég bæta mig talsvert í þeim efnum. ...


Fleiri myndir

Einkennin

Krullótta stúlkan

Á hverjum degi (nánast) sér maður eitthvað nýtt við stúlkuna sprellinýju.  Til dæmis er það að koma í ljós að hún er krullótt með eindæmum, en baaara þegar hárið er blautt.  Þegar það þornar er það rennislétt eins og á móðurinni góðu. 

Mamman hefur alltaf óskað sér örlítils lífs í hárið sitt en allt hefur komið fyrir ekki og hún vaknar daglega við ofurslétt hárið sitt, laust við alla liði, krullur, dúllur eða önnur skemmtilegheit.  Víst óska flestir sér svona breytinga og væntanlega vilja sumir krullóttir einstaklingar gjarnan hafa strauslétt hár.  Samt hljómar setningin " ooo ég vildi stundum að liðað hár mitt væri svona slétt eins og þitt" álíka trúleg í mínum augum og ef einhver myndi segja við mig "ooo ég vildi að ég ætti eins auðvelt með að bæta á mig aukakílóum og þú..."


Framtíðarleikfélagar

Sturla og Ísold

Emma Lilja á nú þegar nokkra vini, allavega nokkra framtíðarleikfélaga (hvort sem henni líkar betur eða verr....). Reyndar eru einhverjir vinir hennar ennþá bara í mallanum á mömmum sínum eins og á Önnu Lilju systur Dóra, og vinkonum mínum Siggu, Göggu og Brynju.  (er örugglega að gleyma einhverjum) Búast má við þeim í heiminn á næstu mánuðum. Sjá meðfylgjandi myndir. Klikkið á fyrirsögn fyrir fleiri myndir og á myndirnar sjálfar til að sjá þær stærri og meiri texta.  (þessi bloggvefur er ekki nógu myndavænn en það stendur víst til bóta.)

 


Fleiri myndir

Leikföng

Dóri og draumurinn

Karlmenn kjósa stór leikföng.  Stór og dýr og hraðskreið.   Helst verða þau að framleiða dómadagshávaða líka.  Dóri á sér draum um eitt slíkt.  Raggi frændi hans var ekki að hjálpa mömmugreyinu að kveða slíka drauma niður þegar hann kom í heimsókn að sýna leikfangið sitt, Kawasaki Vulcan 1600. Dóri slefaði og gat ekki sagt orð af viti næsta sólarhringinn.  Allar setningar innihéldu orðið mótorhjól....

Ég og Emma Lilja erum meira hrifnar af "leikföngum" eins og hinni dýrindis hringekju sem Emma Lilja fékk í skírnargjöf. Klikkið á fyrirsögn til að sjá mynd af slíkri dýrð. 


Fleiri myndir

Brosað út í annað

Brosandi út í annað
Litla ljósið með nýja nafnið lætur stundum svo lítið að brosa framan í
viðstadda, yfirleitt við ómælda gleði.  Reyndar virðist hún samt
brosa mest við ósýnilegu fólki, bara eitthvað út í loftið eða jafnvel
bara við sófabaki.  Á meðfylgjandi mynd gæti hún samt verið að
brosa að afar skemmtilegri hárgreiðslu sinni, allavega fannst mömmunni
hún óborganlega fyndin.

Emma Lilja skal stúlkan heita

Skírnardagurinn

Já loksins er hægt að kalla á stúlkuna með nafni.  Eitthvað lengra verður í það að hún hlýði nafninu þó.  Athöfnin í Landakotskirkju var hugguleg í faðmi fjölskyldunnar og feikileg kökuveisla var haldin að Bollagötu þar sem kaloríur voru innbyrtar í stórum stíl.  Emma Lilja lét sér fátt um finnast og lagði sig bara í gegnum alla athöfnina og jú jú bara veisluna líka.  Hún rétt opnaði annað augað þegar vatni var skvett á kollinn. Megi ömmurnar eiga þakkir fyrir að hjálpa móðurinni ósjálfbjarga.  Sérstaklega á tengdamóðirin tilvonandi þakkir skildar, hún veit hvert hún getur leitað ef hana vantar einhverntímann nýrnagjafa...

Almenn ánægja virtist ríkja með nafngiftina enda myndi svosem engin þora að láta í ljós einhverjar efasemdir með nafnið sem átti frekar erfiða fæðingu.  Emmu nafnið kemur alveg úr loftinu en mömmunni finnst afar huggulegt að það sé svona internasjónal, hún burðast sjálf með eitt óþjált sem fólk  í úklandinu strögglast við að bera fram (þó fallegt sé, að sjálfsögðu...). 

Lilju nafnið kemur svo frá báðum áttum fjölskyldunnar.  Mamman á svo yndislega frænku og æskuvinkonu með því nafni, sem hefur gengið í gegnum hrikalegar hremmingar en komið út úr því ótrúlega heil og með húmorinn í lagi  og væri litla stúlkan heppin ef hún hefði eitthvað af hennar krafti.  Pabbinn á svo systur og móðursystur sem bera nafnið sem millinafn og betri og yndislegri manneskjur er vart hægt að finna.  Ekki leiðum að líkjast.   Klikkið á fyrirsögn fyrir fleiri myndir.


Fleiri myndir

Sumarið komið

Grillarinn Dóri

Gleðilegt sumar!

Þetta sumar lofar góðu, enda ekki á hverju vori sem maður horfir fram á margra mánaða samveru með vaxandi barni með öllum þeim skemmtilegheitum sem tilheyra.  Hvað getur maður annað en horft björtum augum á sumarið sem er í vændum?

Veðrið hefur verið að reyna að ákveða sig undanfarið hvort það lýsi frati á allar sumarpælingar eða hvort það spili með en allavega er búið að vígja grillið inn í sumarið og hvað boðar sumarkomu betur en grillilmurinn góði?  

Á laugardaginn fær dóttirin nafnlausa loksins nafnið sitt og bíða foreldrarnir spenntir eftir því að geta loks farið að leggja nafnleysurnar til hliðar, dúllan, lillan,barnið, djásnið,yndið og allt það.  Eftir laugardaginn verða slíkar nafnleysur bara notaðar "spari".  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggari

Rósarimafjölskyldan...
Rósarimafjölskyldan...
Hvað er í gangi í Rósarimanum?

Færsluflokkar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband