Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
13.8.2008 | 10:59
Aftur í hjólförin...með sinkskort
Eftir tvo daga í vinnu, þá er hreinlega eins og maður hafi aldrei farið í frí! En sem betur fer er maður jú eitthvað afslappaðri og þar sem ég er í skemmtilegri vinnu, þá get ég ekki kvartað yfir að vera komin aftur á kaf í rútínuna. Emma Lilja virtist líka nokkuð sátt að fara aftur í leikskólann, þó hún hafi horft svolítið ásakandi á mig þegar ég skildi hana þar eftir í gærmorgun... Ragga þroskaþjálfi kemur aðeins seinna úr fríi en við þannig að í millitíðinni, verður Emma að sætta sig við að vera ein af barnahópnum á leikskólanum, engin sérathygli þar... Það er nú örugglega í lagi líka, þó það verði gott að vita af henni aftur í öruggum höndum Röggu.
Sjúkraþjálfun byrjaði aftur í morgun og vorum við sáttar við það öryggi sem hún hefur náð í labbinu sínu og við að standa sjálf, enn er þó nokkuð í land með að hún nái mýkt og fjöðrun í göngulaginu, hún er svoddan spýtukall. Einnig þurfum við að láta hana æfa sig meira í að standa upp við háa hluti eins og sófaborð og bara frístandandi á gólfinu, það getur hún alls ekki í dag. En þetta er allt á réttri leið, það er nú alveg víst.
Vonandi náum við svo að byrja í iðjuþjálfun og einhverri talþjálfun í haust, en það er víst martröð að komast að hjá talþjálfara, allt í einhverju volli varðandi samninga við TR. Ömurlegt að slíkt bitni svona á börnunum sem þurfa þessa hjálp. Að öðru leyti get ég ekki kvartað undan þeirri þjónustu sem Emma Lilja fær, er nokkuð sátt enn sem komið er.
Í byrjun sumarfrísins okkar lét ég taka ýmsar blóðprufur úr Emmu til að kanna ýmsa hluti eins og vítamínskort og glútenóþol, en það ber víst oft á ýmsum vítamínskorti hjá einhverfum börnum, skv hinum ýmsu kenningum sem eru á lofti í hinum mjög svo amerísku fræðibókum sem ég hef verið að lesa. Fyrir nokkrum dögum komu síðustu niðurstöðurnar en allt reyndist eðlilegt nema hún er nokkuð lág í sinki. Læknir vildi ekki að ég gæfi henni bætiefni sökum aldurs en reyna frekar að láta hana borða sinkríkt fæði eins og hægt er, t.d. lambakjöt, svínakjöt, gróft mjöl og korn, mjólkurvörur, fisk etc. Þegar ég fór að lesa mér til um sinkskort, þá sá ég að margar lýsingarnar áttu ótrúlega vel við hana, en sinkskortur getur leitt til hamlaðs þroska og veiks ónæmiskerfis, lélegs vaxtar og erfiðleika í úrvinnslu skynjana. Ég er svo sem ekki að segja að þetta sé orsökin að baki allra hennar vandamála en mikið væri nú gaman að geta bara lagað allt með smá vítamínbústi...! Sjáum til hvernig fer.
kveðja í bili...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2008 | 09:55
Í blóma
Jæja,
Yndisleg bústaðaferð að baki og síðasta sumarfrísvikan að hefjast. Alveg hreint er þetta nú dásamlegt allt saman. Dóri duglegur í golfinu og ég reyni að skreppa í sund við tækifæri en annars má kalla þetta hina mestu afslöppun.
Emma Lilja er núna búin að vera þrjár vikur á kúrnum og við sjáum engar dramatískar breytingar þannig að ég fer bara að setja inn glúten og mjólkurvörur hægt og hægt svona rétt í lokin á fríinu svo hún fái ekki sjokk í leikskólanum. Átti svo sem ekki endilega von á því að þetta gerði einhver kraftaverk en er afar ánægð með að hafa allavega prófað þetta. Þá sest maður bara aftur í amrísku "fræðin" og athugar hvaða kraftaverkalækningar aðrar maður getur prófað. Held ég setji samt mörkin við raflostmeðferð eða kvikasilfurmeðferð...
Ég þarf alveg að fara að skella einhverjum myndum hér inn, lofa að gera það fljótlega.
over and out
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar