Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
15.6.2008 | 22:37
Fimm þumalputtar
Jæja, ég er víst strax farin að slá slöku við í blogginu... get víst ekki gert betur en að reyna. Ofsalega þykir mér vænt um að fá að heyra á athugasemdunum að einhver lesi þetta pár, þó fyrri yfirlýsingar gefi til kynna að ég bloggi meira fyrir sjálfa mig
Lillan búin að vera svolítið dugleg að herma eftir mömmu og pabba um helgina en fyrstu æfingarnar í leikskólanum fela í sér fyrirmælin "Gerðu svona" og svo er höndum lyft beint upp yfir höfuð eða klappað. Þetta er nokkuð flókið fyrir litla stúlku sem kann ekki að herma eftir en eitthvað er allavega að gerast, það er frábært.
Það er þó eitt sem heftir hana talsvert en það er áráttan að vera alltaf að sjúga vinstri hendina, eða vísifingur og þumalputta á meðan hægri hendi fiktar í eyranu á sjálfri sér. Hún var með ágætis tangargrip (tak á hlutum milli þumalputta og vísifingurs) en með þessu endalausa sogi, þá er hún nánast búin að glata því niður og á núna í mestu erfiðleikum bara að týna Cheerios eða brauðbita upp í sig. Hún tekur þá yfirleitt upp hluti með öllum lófanum og reynir svo að troða nánast allri hendinni upp í sig til að ná bitanum góða. Við höfum reynt ýmislegt en það sem hefur gengið best er að láta hana vera með fingravettling á vinstri hendi, þá allavega náði hún að slappa af nógu lengi með hendina úr munninum að hún fann jafnvægið til að byrja að labba svolítið. Vildi óska að hún hefði bara viljað snuð á sínum tíma til að fá útrás fyrir þessa sogþörf, það þýðir lítið að byrja á því núna (trúið mér ég var að reyna þetta um daginn .)
Varðandi labbið, þá er hún svo stíf í hnjánum og beygir þau helst ekkert þó hún geti það alveg og hún á í mestu erfiðleikum við að labba á ósléttu grasbala. Hún eiginlega neitar bara að fara af stað þegar við erum úti á grasi. Henni finnst hinsvegar voða gaman að fá að leiða mömmu og þá er hægt að labba endalaust og er voða gaman að vera úti í góða veðrinu.
mánuður í sumarfrí... kveðja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.6.2008 | 21:48
Atferlismótun
Jæja, þá fer stúlkan loks að fara að fá markvissa einhverfumeðferð. Það virkar sem sagt þannig að sérfræðingur í atferlismótun sem er aðferðin sem við veljum að fara, kom og sýndi okkur í leikskólanum hvernig við ættum að byrja og svo er ekkert meira í boði fyrr en eftir mánuð þegar sami sérfræðingur kemur og verður viðstaddur þjálfunarstund.
Maður gerir sér grein fyrir að þeir á greiningarstöðinni eru yfirhlaðnir og vafalaust ótrúlega langur verkefnalisti hjá þeim sérfræðingum sem þar eru, en ég hefði samt kosið að fá aðeins meiri aðstoð við að koma meðferðinni af stað. Ég var búin að fá upplýsingar um að sérfræðingar myndu sjá um þjálfunina, allavega þar til þekkingin hefur yfirfærst á þroskaþjálfa leikskólans en nei, það er víst ekki þannig í bili. En maður er nú samt mikið heppin að hafa svakalega gott fólk í leikskólanum og Ragga þroskaþjálfi hefur verið og mun vafalaust vera frábær í þessu. Að sjálfsögðu munum við svo taka pakkann áfram hérna heima og maður skoðar að kaupa jafnvel aukalega sérfræðiaðstoð heim. Sjáum til með það.
Markmiðið með atferlismótunaraðferðinni er svo að fá stúlkuna góðu til að herma eftir. Þegar hún er loks farin að herma eftir, þá er hægt að kenna henni ýmsar athafnir og hreyfingar sem hún er ekki að ná að læra sjálf. Bara best að krossleggja fingur, biðja um mikla þolinmæði, árangur og allt sem þarf í góðan kokkteil
Sumarkveðja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar