Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Torticollis

Lasinn stúlka

Eins og kannski hefur komið fram hér áður þá er ég ekkert sérstaklega næm þegar kemur að veikindum fólks.  Eitt af því sem ég hef átt bágt með að læra er þetta að setja hendi á enni barns og geta þá sagt til um hitastig.  Um daginn hélt ég að ég væri búin að ná tökum á þessu þegar Emma Lilja var brennheit á hausnum en þegar ég setti hendi við, þá sko þóttist ég finna að undir þessu öllu væri engin alvöru hiti, þ.e. að hún væri við hestaheilsu.  Við nánari skoðun var stúlkan með rúman 40 stiga hita og ljóst að ég þarf að æfa mig svolítið betur í þessari hitamælingaíþrótt.  Eftir að hafa talað við tvo lækna á tveimur dögum var orðið ljóst að Emma Lilja stríddi við vírus sem ekkert er við að gera en bíða eftir að hverfi en einnig tjáði okkur einn barnalæknir að hún væri með Torticollis.  

Þetta hljómar verr en það er, það sem þetta þýðir er að hún er með smá leiðindi í einum vöðvanum í hálsinum þannig að hún hallar höfðinu alltaf undir flatt, þ.e. vöðvinn er of stuttur.  Og hvað þarf að gera? Jú hún þarf að fara í sjúkraþjálfun, litla stúlkan, svo hún muni ekki þjást af vöðvabólgu síðar á ævinni.  Af öllum "sjúkdómum" sem stúlkan mín hefði getað fengið, þá skal ég sko alveg sættast við saklaust Torticollis.... 


Fleiri myndir

Hálft ár

Oftast finnst manni hálft ár ekki langur tími. Þetta er kannski tími til að ná að borga upp eitt samviskubit á raðgreiðslum, geymslan sem átti að taka í gegn í janúar er enn í rúst hálfu ári síðar, hár síkkar eilítið, uppáhaldslagið í útvarpinu er orðið pirrandi, aukakílóin hrynja á mann úr öllum áttum og maður er alltaf jafnungur.  

Nema þegar frumburðurinn er orðinn hálfs árs, þá er hálft ár alveg gígantískur tími en samt svo snöggur að líða.  Þetta hálfa ár búið að vera ótrúlegt, að sjá litlu rækjuna verða að persónu með eigin karaktereinkenni og svona líka skemmtileg og gleðigjafi fyrir foreldrana. 

  • Sex mánaða krílið getur borðað nánast allt (og finnst það ýkt gaman),
  • getur velt sér í allar áttir
  • getur skriðið svolítið á parkettinu, aðallega afturábak
  • á sín uppáhaldsleikföng (Binna býfluga og Siggi Skjaldbaka)
  • drekkur enn mömmumjólk í miklu magni, helst oft á næturnar líka, ekki til mikilla vinsælda
  • hjalar með tilþrifum, tekur Tarsanöskrin helst strax í býtið og finnst það svaka stuð
  • skellir upp úr og hlær þegar sagt er Búh! oft í röð
  •  á eina uppkomna tönnslu í neðri góm og önnur á uppleið við hliðina
  • finnst voða gaman að sitja og standa en getur ekki alveg sjálf ennþá
  • getur dundað sér endalaust í leikteppinu sínu með dótið sitt
  • er voða góð og þæg og yndisleg
Já þetta er baaaara gaman...  

Hár

Smjörgreiðslan fræga

Hár getur verið ótrúlega fyndið fyrirbæri.  Emma fór í fyrstu klippinguna í vikunni.  Það var snillingsstofa sem kallast Stubbalubbar og gerir þetta að skemmtilegri reynslu fyrir börnin (nei ég er ekki á prósentum, ætti samt að fá svoleiðis...).  Hún fékk viðurkenningu með áföstum hárlokk fyrir og ekki leiðinlegt að eiga slíkt í minningarsarpinum fyrir lilluna.  Nurlarinn móðir hennar ætlaði varla að tíma að greiða offjár fyrir að klippa þessar litlu lufsur og leitaði dyrum og dyngjum að einhverjum ættingjum sem gætu tekið að sér verkið fyrir knús en það bar engan árangur.  Loks gafst ég upp og þar sem maður fær 50% afslátt af fyrstu klippingu á fyrrnefndri stofu þá skellti ég mér þangað. Ég fylgdist bara vel með og hver veit nema ég prófi mig við þessa iðju þegar þess verður næst þörf!   Áður en lokkarnir fögru fengu að fjúka varð ég að taka nokkrar myndir af hárprúðri stúlku.  

Meðfylgjandi eru einnig myndir af föður stúlkunnar lokkaljúfu sem var heldur betur lokkaljúfur sjálfur.  Hann tók málið í sínar hendur og krúnurakaði sig sjálfur með þeim árangri sem sjá má á myndunum.  Fyrrnefndri móður finnst hann bara meiri sjarmur svona.... 


Fleiri myndir

Flugan

Bara verð að sýna leggina...

Dúlluleg helgi að baki.  Ég og Emma Lilja fórum í heimsókn á Skagann þar sem við gistum hjá Erlu systir sem er sjúklingur þessa dagana að jafna sig eftir aðgerð.  Emma Lilja var í skýjunum með athyglina frá frænkum sínum Sunnu og Ástrósu og hafði gaman af því að fá að kíkja með í klukkuklúbb að fá að slúðra aðeins og kjamsa á kræsingum. Við heimkomuna á laugardag hittum við fyrir krúnurakaðan föður stúlkunnar. (hann reytti hár sitt í söknuði)  Eftir að fá augnablik til að venjast honum, finnst okkur Emmu Lilju hann bara sætur svona.

Í dag sunnudag tókum við fjölskyldan svo rúnt á Selfoss og svo í heimsókn í bústað á Þingvöllum.  Þvílík paradís sem það er og mikil forréttindi fyrir fólk sem hefur aðgang að því svæði.  Við fengum að smakka aðeins á afurðum eftir berjamó og tókum göngutúr um svæðið.  Svo er ég svo heillandi persóna að ein ágeng þingvallafluga reyndi að komast sem næst mér og það með því að dýfa sér inn í eyrað á mér.  Skrýtin tilfinning að finna iðandi hreyfingar á þessu svæði, held að hún hafi ætlað að tékka á heilanum sem snöggvast.    Það var brugðið á ýmis ráð til að ná óboðna gestinum út en tilvonandi tengdamóður minni tókst loks að bjarga geðheilsu minni með hárspennu.  Úff þarf að þurrka þetta úr minninu sem fyrst.  En eins og fórnfús móðir myndi segja: Betra ég en Emma Lilja...


Bloggari

Rósarimafjölskyldan...
Rósarimafjölskyldan...
Hvað er í gangi í Rósarimanum?

Færsluflokkar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband