Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2006
30.8.2006 | 15:55
Móðursýkin
Ég á við vandamál að stríða sem móðir. Það liggur í því að ég er svo dæmalaust lengi að taka á hlutum. Ég hef alltaf hallast að hinu virta og aldagamla íslenska spakmæli: " Þetta reddast". Þetta er svosem ágætis mottó varðandi margt en þegar kemur að heilsu manns þá er spurning um að taka þessu ekki alveg eins hátíðlega. Ef ég fæ tannpínu þá bíð ég bara nokkra daga og yfirleitt hverfur verkurinn. Ef ég fæ útbrot þá bíð ég bara nokkrar vikur og yfirleitt hverfur kláðinn og ummmerkin. Hins vegar eru jú verkir stundum bara merki um eitthvað meira undirliggjandi og oft er nú gott að láta prófessjónal fólk kíkja á málið.
Sem móðir hættir mér til að beita sömu rökum en það er nú ekki alltaf sniðugt þegar um er að ræða fimm mánaða fallega stúlku sem getur ekki alveg tjáð sig um sína vanlíðan. Um daginn fékk hún kvef með hósta og hori og af gömlum vana set ég mig í stellingar til að svona þrauka þetta, þetta er nú bara kvef! Á endanum, eftir að hitinn blossaði upp lét ég tilleiðast og hringdi í læknavakt og fékk ráð hjá hjúkrunarkonu. Hún vildi meina að þegar börnin væru svona ung væri alltaf betra að hlusta þau til að sjá hvort væri eitthvað "oní þeim".
Við rukum á vaktina með stúlkuna í náttfötunum og sem betur fer var þetta ekkert verra en bara hor í nös og kvef almennt. Í þetta sinn.
En maður veit víst aldrei og ég ætla að fara að bæta við lífsmottóið mitt þannig að það hljómi í endurbættri mynd: Þetta reddast jú allt, en allur er varinn góður....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2006 | 12:44
Hvunndagsorlofið byrjar á ný eftir sumarfrí
Jæja, þá er yndisleg sumarbústaðavika í Húsafelli að baki með yndislegu veðri, tilheyrandi ofeldi (já nei, ekki ofbeldi!) og miklu magni af grænu hori frá ungabarninu. Við tókum þá vel ígrunduðu ákvörðun að skella einkabarninu með okkur í ljúfan heitan pott í einmuna veðurblíðu föstudagsins (þ.e. komudagsins) en einhvernveginn tókst henni að krækja sér í kvef út frá þeirri reynslu og var spúandi vessum það sem eftir var vikunnar. En það kom ekki í veg fyrir að dúllan skemmti sér hið besta í barnarúminu/leikgrindinni/geymsluhólfinu með dótinu sínu og bara almennt. Foreldrar og systur Dóra kíktu í heimsókn á sunnudeginum og var þá tekið til við gönguferðir, trampólinhopp og að sjálfsögðu almennt át. Sjá meðfylgjandi myndir....
Nú verð ég víst að taka mig til við að fara að gera allt sem ég hef frestað fram "þar til eftir sumarbústaðinn". Það sem ber hæst á þeim frestunarlista er t.d. að fara að finna dagmömmu fyrir Emmu Lilju (óó vil helst ekki til þess hugsa...), fara í megrun (einhverntímann verður sælgætisátinu að linna, er það ekki?), endurraða í geymslunni og fataskápunum (hmmm þetta er stærsta verkefni fæðingarorlofsins, verður líklega frestað aftur og aftur þar til viku áður en ég fer að vinna en tekur svo örugglega bara 2-3 klst).
En það er nú sunnudagur ennþá og allar þessar framkvæmdir geta svo sannarlega beðið allavega fram til morgundagsins....
p.s. Sá einhver ofboðslega skrýtin brúðuþátt (Búbbarnir- halló hvar var þetta ónefni fundið?) á stöð 2 í gær sem mig grunar að hafi átt að vera fyndinn en minnti frekar á stórslys sem maður horfir á í von um að sjá eitthvað djúsí en skammast sín samt fyrir að vera að horfa??
Bloggar | Breytt 28.8.2006 kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.8.2006 | 17:16
Kveðja
Bara svona rétt að kveðja að sinni en vikufrí í Húsafelli er framundan. Ég er búin að fylla gám af "nauðsynlegum" hlutum fyrir barnið og er hann nú á leiðinni í Húsafell Hmm já eða þannig. Á maður ekki bara von á brjáluðum mótmælendum sem hanga á þakinu hjá manni og heimta að maður spari rafmagn og noti umhverfisvænar bleyjur?? Þeir kannski handjárna sig við skiptitöskuna mína...
Skelli hér inn nokkrum myndum af nýju tönnslunni hjá Emmu Lilju og einnig af galvöskum mæðgum sem fóru í göngutúr um daginn og sumir héldu það ekki alveg vakandi út.
Hafið það gott á meðan við sólum okkur í hitanum í Húsafelli....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2006 | 17:35
Emma Lilja (5 mánaða) í blóma
Jæja, þá er stúlkan orðin þetta gömul, mikið svakalega líður tíminn hratt. Ef ég hefði bara tekið sex mánaða fæðingarorlof þá væri ég alveg að fara að vinna aftur, þvílíkur hrollur..... Gæti ekki hugsað mér að skilja hana eftir svona litla. Jæja þarf víst ekki að hugsa um það í bili. En hvað um það, nú liggur fyrir að fara í Húsafell í bústað á föstudaginn og vera í viku og þá er ég bara með á heilanum allt sem ég á eftir að gleyma. Ég hef aldrei farið svona lengi með hana í ferðalag og býst við að ég eigi eftir að tæma allar fataskúffurnar hennar til að taka örugglega nóg með. Já og baðherbergið verður víst tæmt líka. Hmmm kannski ég fái bara Samskip til að senda gám með okkur, ætli það bjargi ekki bara málunum?
Læt fylgja með myndir úr ungbarnasundinu góða og skemmtilega sem við urðum að draga okkur í hlé frá eftir tvo tíma þar sem fór að kræla á eyrnabólgu. Held samt að ég verði að draga stúlkuna með mér aftur af stað fljótlega, þetta var svo hrikalega gaman og hún hefur svo gott af æfingunum sem gerðar eru. Ef eyrnabólgan tekur sig upp aftur þá játa ég mig sigraða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2006 | 13:25
Fyrirsætan Emma
Við erum svo heppin að eiga vinapar sem heita Jonni og Halla. Fyrir utan það hvað þau eru nú gott fólk og gaman að þekkja, þá er Jonni mikill ljósmyndari og var til í að ljósmynda Rósarimafrumburðinn. Við prófuðum okkur aðeins áfram og hér fylgja nokkur sýnishorn frá þessum snilling. Til stendur svo að halda myndatökum áfram fljótlega og er þá þemað Rósarimafjölskyldan. Sjáum til hvernig tekst til með það....
p.s. Halla, þetta var Cate Blanchett sem við sáum á Laugaveginum á laugardag..... Veiiiiii hvað við erum frægar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2006 | 14:09
Allt að gerast
Jæja, það er aldeilis bloggletin á þessum bæ. Það er svona þegar kemur smá gott veður þá bara er maður skyldugur til að vera úti og gera eitthvað skemmtilegt og hafa gaman. og þá er lítið bloggað... Reyndar gerðust þau stórtíðindi um daginn að fyrsta tönnin hennar Emmu Lilju braust í gegnum tannholdið. Sem betur fer fylgdi þessu engin grátur eða kvart, bara bros og hjal. Nú verður maður víst að fara að rækta sigg á geirvörtunni til að byrgja sig gagnvart framtíðarbitum lítilla hvassra tanna... Einnig er stúlkan búin að vera svaka dugleg að æfa vagg og veltu á leikteppinu sínu, hún er alveg að ná þessu og þurfa nú foreldrarnir að passa sig að skilja litla krílið hvergi eitt eftir þar sem hægt er að velta sér niður á gólf. Þeir dagar eru víst liðnir þar sem stúlkan broshýra lá bara róleg og beið í þeirri stellingu sem hún var lögð niður í, eftir hverju sem vera vildi.
Við foreldrarnir nýbökuðu prófuðum líka eitt í gær í fyrsta skipti og það var að fara bæði út í einu að kvöldi til með ekkert barn. Við bara skelltum okkur í bíó með vinum og amma Heiða var svo góð að passa Emmu Lilju á meðan. Reyndar kom það mér á óvart að Dóri var alveg stressaðri yfir þessu en ég en auðvitað var þetta ekkert mál og við áttum bara indælis kvöldstund og hver veit nema maður bara geri þetta aftur. Passið ykkur nú ættingjar, nú linnir ekki barnapössunarbeiðnum.... Annars veit ég ekki af hverju það lenti svo að fyrsta pössunin á sér stað svona seint, Emma Lilja er orðin alveg fjögurra og hálfsmánaða gömul. Við erum ekkert paranoid foreldrar eða þannig. Ég hef alveg farið og hitt vinkonur á kvöldin en þá hef ég bara tekið Emmu með. Þetta kemur út eins og maður sé orðin alveg steingeldur og leiðinlegur og vilji bara vera heima alla daga og öll kvöld að lesa uppeldisbækur og strauja barnaföt.
Róleg verslunarmannahelgi framundan, dagurinn í dag verður í faðmi vinahóps Dóra og á morgun líklega á Þingvöllum í heimsókn hjá Önnu Lilju og Ella. Get ekki sagt að mig langi að vera dauðadrukkin í tjaldi á þjóðhátíð. Sem betur fer eru þeir dagar í mínu lífi liðnir að maður hafi gaman að slíku. Hmm en ef um væri að ræða sumarbústað, Irish Coffee eða rauðvín og heitan pott þá værum við alveg að tala saman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar