17.8.2006 | 17:16
Kveðja
Bara svona rétt að kveðja að sinni en vikufrí í Húsafelli er framundan. Ég er búin að fylla gám af "nauðsynlegum" hlutum fyrir barnið og er hann nú á leiðinni í Húsafell Hmm já eða þannig. Á maður ekki bara von á brjáluðum mótmælendum sem hanga á þakinu hjá manni og heimta að maður spari rafmagn og noti umhverfisvænar bleyjur?? Þeir kannski handjárna sig við skiptitöskuna mína...
Skelli hér inn nokkrum myndum af nýju tönnslunni hjá Emmu Lilju og einnig af galvöskum mæðgum sem fóru í göngutúr um daginn og sumir héldu það ekki alveg vakandi út.
Hafið það gott á meðan við sólum okkur í hitanum í Húsafelli....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2006 | 17:35
Emma Lilja (5 mánaða) í blóma
Jæja, þá er stúlkan orðin þetta gömul, mikið svakalega líður tíminn hratt. Ef ég hefði bara tekið sex mánaða fæðingarorlof þá væri ég alveg að fara að vinna aftur, þvílíkur hrollur..... Gæti ekki hugsað mér að skilja hana eftir svona litla. Jæja þarf víst ekki að hugsa um það í bili. En hvað um það, nú liggur fyrir að fara í Húsafell í bústað á föstudaginn og vera í viku og þá er ég bara með á heilanum allt sem ég á eftir að gleyma. Ég hef aldrei farið svona lengi með hana í ferðalag og býst við að ég eigi eftir að tæma allar fataskúffurnar hennar til að taka örugglega nóg með. Já og baðherbergið verður víst tæmt líka. Hmmm kannski ég fái bara Samskip til að senda gám með okkur, ætli það bjargi ekki bara málunum?
Læt fylgja með myndir úr ungbarnasundinu góða og skemmtilega sem við urðum að draga okkur í hlé frá eftir tvo tíma þar sem fór að kræla á eyrnabólgu. Held samt að ég verði að draga stúlkuna með mér aftur af stað fljótlega, þetta var svo hrikalega gaman og hún hefur svo gott af æfingunum sem gerðar eru. Ef eyrnabólgan tekur sig upp aftur þá játa ég mig sigraða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2006 | 13:25
Fyrirsætan Emma
Við erum svo heppin að eiga vinapar sem heita Jonni og Halla. Fyrir utan það hvað þau eru nú gott fólk og gaman að þekkja, þá er Jonni mikill ljósmyndari og var til í að ljósmynda Rósarimafrumburðinn. Við prófuðum okkur aðeins áfram og hér fylgja nokkur sýnishorn frá þessum snilling. Til stendur svo að halda myndatökum áfram fljótlega og er þá þemað Rósarimafjölskyldan. Sjáum til hvernig tekst til með það....
p.s. Halla, þetta var Cate Blanchett sem við sáum á Laugaveginum á laugardag..... Veiiiiii hvað við erum frægar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2006 | 14:09
Allt að gerast
Jæja, það er aldeilis bloggletin á þessum bæ. Það er svona þegar kemur smá gott veður þá bara er maður skyldugur til að vera úti og gera eitthvað skemmtilegt og hafa gaman. og þá er lítið bloggað... Reyndar gerðust þau stórtíðindi um daginn að fyrsta tönnin hennar Emmu Lilju braust í gegnum tannholdið. Sem betur fer fylgdi þessu engin grátur eða kvart, bara bros og hjal. Nú verður maður víst að fara að rækta sigg á geirvörtunni til að byrgja sig gagnvart framtíðarbitum lítilla hvassra tanna... Einnig er stúlkan búin að vera svaka dugleg að æfa vagg og veltu á leikteppinu sínu, hún er alveg að ná þessu og þurfa nú foreldrarnir að passa sig að skilja litla krílið hvergi eitt eftir þar sem hægt er að velta sér niður á gólf. Þeir dagar eru víst liðnir þar sem stúlkan broshýra lá bara róleg og beið í þeirri stellingu sem hún var lögð niður í, eftir hverju sem vera vildi.
Við foreldrarnir nýbökuðu prófuðum líka eitt í gær í fyrsta skipti og það var að fara bæði út í einu að kvöldi til með ekkert barn. Við bara skelltum okkur í bíó með vinum og amma Heiða var svo góð að passa Emmu Lilju á meðan. Reyndar kom það mér á óvart að Dóri var alveg stressaðri yfir þessu en ég en auðvitað var þetta ekkert mál og við áttum bara indælis kvöldstund og hver veit nema maður bara geri þetta aftur. Passið ykkur nú ættingjar, nú linnir ekki barnapössunarbeiðnum.... Annars veit ég ekki af hverju það lenti svo að fyrsta pössunin á sér stað svona seint, Emma Lilja er orðin alveg fjögurra og hálfsmánaða gömul. Við erum ekkert paranoid foreldrar eða þannig. Ég hef alveg farið og hitt vinkonur á kvöldin en þá hef ég bara tekið Emmu með. Þetta kemur út eins og maður sé orðin alveg steingeldur og leiðinlegur og vilji bara vera heima alla daga og öll kvöld að lesa uppeldisbækur og strauja barnaföt.
Róleg verslunarmannahelgi framundan, dagurinn í dag verður í faðmi vinahóps Dóra og á morgun líklega á Þingvöllum í heimsókn hjá Önnu Lilju og Ella. Get ekki sagt að mig langi að vera dauðadrukkin í tjaldi á þjóðhátíð. Sem betur fer eru þeir dagar í mínu lífi liðnir að maður hafi gaman að slíku. Hmm en ef um væri að ræða sumarbústað, Irish Coffee eða rauðvín og heitan pott þá værum við alveg að tala saman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.7.2006 | 14:51
Óvænt tíðindi
Á síðasta laugardag héldum við Emma Lilja á Skagann til að samfagna litlu frænkum mínum, þeim Sunnu og Ástrósu sem héldu upp á afmæli sín saman. Öll familían var samankomin og beið maður óþolinmóður eftir að komast í kökurnar þegar séra Eðvarð Ingólfsson stígur fram í fullum skrúða og hjónavígsla Erlu systur og Bjarka hefst. Þar sem þau eru búin að vera saman í heil tólf (12) ár þá hefði þetta kannski ekki átt að koma á óvart en það gerði það samt svo sannarlega.... Það tók fólk nokkra stund að loka opnum munnum og fatta hvað var í gangi en þetta var bara dásamlega gaman og þá eru bara báðar systur mínar giftar með tveggja mánaða millibili. Sem betur fer fáum við Dóri alveg séns, þ.e. við erum svo ný í þessu málum að við eigum alveg inni þó nokkur ár áður en við þurfum að fara að huga að þessu. Eða er það ekki?
Þá er Emma Lilja búin að fara í fjögur brúðkaup, tvær fermingar, útskriftarveislu, ættarmót, og um það bil 50 afmæli á sínum rúma fjögurra mánaða ferli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.7.2006 | 13:47
Sumarskrepp
MMMMM, þetta er búið að vera svo yndislegt í þessari sól sem maður var hættur að trúa á. Svo heppilega vildi til að Dóri var í fríi síðustu viku og vorum við svo heppin að fá að dvelja í sumarbústað fjölskyldu hans í Kjósinni í Hvalfirði. Þar var gert allt sem tilheyrir slíkri vist og við bættist svo nætursjónvarspgláp á hann Magna í Rockstar. Mikið ofsalega er þetta gaman. Mér fannst næstum eins og ég væri stolt móðir þegar hann fékk að taka aukalag í vikunni. Spádómsinnsæi mitt sér fram á fleiri næturvökur á miðvikudags og fimmtudagsnóttum í bráð.
En sem sagt, stúlkan litla sem var með smá eyrnabólgu og er því í fríi frá ungbarnasundi, fékk líka mikið kvef og var því frussað smá vessum í bústaðnum. En þetta er allt á góðri leið og vafalaust hefur sólin hjálpað til að þurrka upp svona óþarfa vessaframleiðslu. Nokkrar myndir fylgja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2006 | 12:31
AMMMMMLI
Í dag er litla dóttir mín orðin fjögurra mánaða gömul. Ekki nóg með að hún eigi þetta afmæli í dag heldur er einnig nákvæmlega ár frá því að Dóri fékk sjokkið þegar ég sveiflaði jákvæðri óléttuprufu framan í hann. (já nei, það slettist ekkert...) Mér finnst eitthvað svo langt síðan þetta var en samt svo stutt.
Til hamingju allir nær og fjær sem fá gleði í hjarta við slíka niðurstöðu, ég man allavega að mitt litla hjarta var einhversstaðar í fimmta, sjötta eða jafnvel sjöunda himni. og er enn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.7.2006 | 15:08
Heimsmeistarar
Ég hef ekki mikinn áhuga á fótbolta en Dóri hefur alveg áhuga á við fjóra þannig að maður hefur ekki farið varhluta af (hmmm skrýtið orðatiltæki) undangenginni heimsmeistarakeppni.
Þegar Evrópumeistarakeppnin var fyrir einhverjum árum þá slysaðist ég til þess að halda með Grikkjum (Sá flottan bol í fánalitunum þeirra.....). Öllum að óvörum sigruðu þeir keppnina og spákonan Hafdís fæddist. Í þessari keppni sagði fyrrnefnt "spákonuinnsæi" mér að Frakkar myndu sigra keppnina og reyndar leit alveg út fyrir það um tíma. Dóri var farin að huga að því að láta mig tippa reglulega fyrir háar fjárhæðir en svo skeði úrslitaleikurinn í gær. Við söfnuðumst saman hjá foreldrum Dóra og eins og sjá má var fjölskyldan ekki alveg sameinuð um að halda með Frökkum. (Dóri svikari...)
Eftir leikinn er ég afar hamingjusöm að hafa ekki reynst sannspá. Ég las nebbnilega í blöðunum um daginn um ýmis skrýtin dauðsföll í sambandi við heimsmeistarakeppnina og eitt af þeim átti rætur að rekja til manns sem fyrirfór sér af ótta við spádómsgáfu sína en hann hafði spáð rétt úrslitum einhvers leiksins. Fegin er ég að þurfa ekki að lifa við slíka byrði sem slíkir hæfileikar væru.....
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2006 | 22:58
Þessi börn...
foreldrum sínum á óvart með því að setja upp skemmtilegt höfuðfat svo
þau ætluðu að fara á límingunum af hlátri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.7.2006 | 13:02
Magni og Prison Break
Ég lafði vakandi í gær til að ná að sjá Magna keppa í Rockstar. Þeir sem voru á undan honum voru svo hrikalega góðir að maður fékk smá hnút í magann þegar hann kom á sviðið. En svo kom hann manni bara á óvart með svakalega góðri rödd, sterk og rokkleg. Framkoman var svona pínu þvinguð, svona " ég verð að vera í geggjuðu stuði" en annars var hann bara flottur. Ég sá ekki þá sem á eftir komu þannig að maður veit ekki hver ætti að detta út en þetta er bara gaman fyrir okkur Íslendingana og þó hann detti strax út er hann samt búin að vinna.
Annað í sambandi við sjónvarp þá var lokaþáttur Prison Break í fyrradag og ég varð alveg bandsjóðandibrjáluð. Hvernig dettur þeim í hug að móðga áhorfendur svona með því að draga þennan horbjóðs flótta í heila 26 þætti og svo endar bara allt í lausu lofti! Ætla þeir virkilega að teygja úr þessu í aðra 26 þætti? Í byrjun fannst mér hann Michael Scofield einhver mest kúl karakter sem hefur komið fram, snillingsklár, alltaf með svona pírð augu og með útreiknaðar lausnir á öllum vandamálum. En halló, eftir að hafa sett saman snilldarflóttaplan til að forða bróður sínum úr fangelsi þá endar hann upp á náð og miskunn hjúkkunnar, þeir sem eru komnir í flóttahópinn eru búnir að margfaldast óendanlega (það voru varla nokkrir eftrir í fangelsinu eftir að þeir komust út) og allt fer úrskeiðis sem getur farið úrskeiðis og þeir enda bara hlaupandi undan löggunni eins og kóngulær undan ryksugu. Ekki mikið kúl við það. Reiknið ekki með mér til að horfa á næstu seríu, ég er móðguð og búin að fá nóg.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar